Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 247/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 247/2023

Mánudaginn 4. september 2023

A

gegn

barnaverndarþjónustu B

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Aðalsteinn Sigfússon, sálfræðingur.

Með kæru, dags. 17. maí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun barnaverndarþjónustu B, dags. 27. apríl 2023, um að loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna dóttur kæranda, C. Einnig er kærð ákvörðun barnaverndarþjónustu B, dags. 28. mars 2023, sem tekin var í máli sonar kæranda, D um hefja ekki könnun máls samkvæmt 4. mgr. 21. gr. bvl.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan, C, er X gömul dóttir kæranda. Drengurinn D, er X gamall sonur kæranda. Mál barnanna hófst í kjölfar tilkynningar, dags. 16. mars 2023, samkvæmt 17. gr. bvl. 

Í málinu liggur fyrir greinargerð barnaverndarþjónustu B um könnun máls, dags. 20. júní 2019 vegna tilkynninga sem bárust árið 2018 og 2019. Í niðurstöðu könnunar kemur fram að foreldrar eigi við mikinn samskiptavanda að stríða sem börn þeirra verða óhjákvæmilega vör við. Fram kemur að sálfræðingur sem rætt hafi við börnin teldi að vandi barnanna tengdist fyrst og fremst erfiðum samskiptum foreldranna og ólíkum viðhorfum þeirra varðandi uppeldisleg gildi. Ofbeldi föður gagnvart börnunum hafi ekki verið staðfest í könnuninni né í fyrri könnunum. 

Samkvæmt gögnum málsins var mál stúlkunnar tekið fyrir hjá barnaverndarþjónustu B þann 27. apríl 2023 og var niðurstaðan sú að ekki væri þörf á aðgerðum á grundvelli barnaverndarlaga og því hafi málinu verið lokað.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 17. maí 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. maí 2023, var óskað eftir greinargerð barnaverndarþjónustu B ásamt gögnum málsins. Greinargerð barnaverndarþjónustu B barst nefndinni með bréfi, dags. 16. júní 2023. Með bréfi, dags. 19. júní 2023 var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir og viðbótargögn bárust frá kæranda með bréfi, dags. 28. júní 2023 og með bréfi, dags. 6. júlí 2023 voru þau send barnaverndarþjónustu B til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Úrskurðarnefndin aflaði viðbótargagna frá barnaverndarþjónustu B sem bárust með bréfum, 11. ágúst 2023 og 15. ágúst 2023.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að í málum barna hennar hafi borist ótal tilkynningar sem sýna áreiðanlegar vísbendingar um ofbeldi af hálfu föður sem ekki hafa verið kannaðar með viðeigandi hætti af barnaverndarþjónustu B og sé því kærð sú ákvörðun þeirra að loka málunum. Fram kemur í kæru að málið sé einnig til skoðunar hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.

Í svörum barnaverndarþjónustu B til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála dags. 27. apríl 2023 komi fram að málavinnslan hafi snúið að ófullnægjandi aðstæðum barnanna sem sköpuðust vegna forsjár- og umgengnisdeilu milli foreldra þeirra til margra ára. Að mati kæranda endurspeglar þetta það viðhorf sem hún og börn hennar hafi mætt hjá barnaverndinni. Litið hafi verið á málið sem ágreining en ekki því sem það sé í raun, þ.e. ofbeldi og vanrækslu gagnvart börnunum. Ofbeldi sé ekki ágreiningur. Það að kærandi reyni að vernda börn sín gegn ofbeldi og vanrækslu sé ekki ágreiningur. Það að faðir neiti heilbrigðisaðstoð og sé þannig ósammála móður og sérfræðingum, virðist vera talinn ágreiningur.

Kærandi telur sérstaklega ámælisvert að barnaverndarþjónusta B hafi ákveðið að loka málum barnanna hennar, sérstaklega í ljósi nýrrar tilkynningar frá E sálfræðingi dags. [16]. mars 2023 varðandi líkamlegt ofbeldi föður barnanna gagnvart yngra barninu sem eldra barnið hafi orðið vitni að og upplýsti sálfræðing sinn um. Kærandi hafi sjálf ekki fengið afrit af tilkynningunni en fengið vitneskju um hana og óskað eftir afriti af henni frá barnaverndarþjónustu B en ekki fengið svör við því erindi, sbr. tölvupóst dags. 21. apríl 2023. Þessi vinnubrögð undirstriki áframhaldandi brot barnaverndarþjónustu B á réttindum barna kæranda samkvæmt barnaverndarlögum og Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Ótal tilkynningar hafi borist sem ekki séu kannaðar með eðlilegum hætti og sé vísað í bréf Barnaverndarstofu í málinu varðandi það að þær veiti vísbendingar þess efnis að faðir hafi beitt drenginn ofbeldi, m.a. í viðtali við sálfræðing á vegum barnaverndar. Þar hafi einnig komið fram að mikill fjöldi gagna hefði borist barnaverndinni um ofbeldi sem gáfu til kynna að tilefni væri til þess að taka umræddum ásökunum alvarlega. Þrátt fyrir það og að Barnaverndarstofa hafi sett fram tilmæli til [fjölskylduráðs B] sé í ljósi þessarar nýjustu lokunar ljóst að ekki hefur verið bætt úr. Verður það að teljast afar alvarlegt brot barnaverndarþjónustu B gagnvart börnunum að þau fái ekki enn að njóta vafans og að tilkynningar séu ekki kannaðar með eðlilegum hætti.

Tilkynning barst frá E sálfræðingi dóttur kæranda, dags. [16]. mars 2023, varðandi líkamlegt ofbeldi föður barnanna gagnvart yngra barninu sem eldra barnið varð vitni að og upplýsti sálfræðing sinn um. Kærandi hafi fengið afrit af tilkynningunni þann 16. maí 2023 eftir að hún hafi óskað sjálf eftir afritum af öllum gögnum með tölvupósti dags. 21. apríl 2023.

Í tilkynningu frá sálfræðingnum komi m.a. fram að faðirinn hafi tekið í drenginn og rekið hann upp að vegg, og að börnin hafi bæði verið grátandi og beðið föður um að hætta að „meiða hann". Atvikið sem um ræddi átti sér stað í febrúar og hefur tekið mikið á stúlkuna, og hefur m.a. leitt til aukinna einkenna OCD og kvíða. Þá hafi einnig verið versnun í hegðun drengsins. í bréfi barnaverndar, dags. 27. apríl 2023, komi eftirfarandi fram:

"Tilkynning barst frá E, sálfræðingi, 27. mars sl. Óskað var upplýsinga frá skóla um líðan og stöðu stúlkunnar og gáfu þær upplýsingar ekki tilefni til áhyggna af velferð stúlkunnar."

Þá barst einnig greinargerð frá E sálfræðingi í nóvember 2022 til barnaverndarþjónustu B þar sem kemur fram að barnið sé ekki í skjóli á meðan hún sé að hitta föður og mögulega ekki tilbúin í að umgengni án eftirlits. Skýrir sálfræðingurinn frá því hvernig barnið lýsir samskiptum sínum við föður, og hvernig um sé að ræða andlegt ofbeldi og gaslýsingar í garð barnsins. Hvergi hafi kærandi séð að þetta hafi verið kannað með nokkrum hætti í málinu og hvergi sé á þetta minnst í bréfi barnaverndar um lokun málsins. Þá sé athyglisvert að stúlkan hefur verið í áfallameðferð hjá E vegna áfalla tengdum föður, sem fyrrum sálfræðingur hennar, F, taldi nauðsynlega fyrir hana að fá, og læknir hennar, G barnageðlæknir, tók undir að hún þyrfti. Barnavernd hafi einnig samþykkt þessa meðferð og hefur greitt fyrir hana. Nú hafi hins vegar komið í ljós að E telji erfitt að veita henni viðeigandi áfallameðferð á meðan hún sé „ekki í skjóli" frá andlegu ofbeldi föður. E hafi upplýst barnavernd um þetta með tilkynningum en samt sé ákveðið að loka máli stúlkunnar og þar með væntanlega að loka fyrir frekari greiðsluþátttöku í sálfræðimeðferð. Það megi því segja að faðir hennar sé enn að koma í veg fyrir að hún fái viðeigandi heilbrigðisaðstoð þrátt fyrir að forsjá barnsins sé núna hjá kæranda. Barnavernd sé ekki að stíga inn samkvæmt lögum til að sjá til þess að hún fái þá aðstoð sem hún þarfnast.

Að mati kæranda geti þetta ekki staðist eðlilega meðferð og könnun á máli þegar um sé að ræða áreiðanlegar vísbendingar um ofbeldi gegn börnum samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Þannig ætti barnaverndaryfirvöld í viðkomandi umdæmi t.a.m. án tafar að vista það barn sem kann að hafa orðið fyrir ofbeldi utan heimilis en ef samþykki fæst ekki þá fyrst um sinn á grundvelli neyðarráðstöfunar skv. 31. gr. barnaverndarlaga og síðan e.t.v. í framhaldinu á grundvelli 27. eða 28. gr. bvl.

Í tilkynningu E, sálfræðings sé beinlínis verið að tilkynna um heimilisofbeldi gegn barni/börnum (hélt drengnum þannig að hann meiddi sig) og einnig brot gegn barnaverndarlögum. Þá sé eldra barnið vitni að ofbeldi, en ofbeldi gagnvart nákomnum telst einnig vera ofbeldi gagnvart viðkomandi barni. Sjá nánar eftirfarandi ákvæði bvl.:

„98. gr. Brot umsjáraðila gagnvart barni.

Ef þeir sem hafa barn í sinni umsjá misþyrma því andlega eða líkamlega, misbjóða því kynferðislega eða á annan hátt, vanrækja það andlega eða líkamlega þannig að lífi eða heilsu þess er hætta búin þá varðar það fangelsi allt að fimm árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

99. gr. Brot gagnvart börnum.

Hver sem beitir barn andlegum eða líkamlegum refsingum, hótunum eða ógnunum eða sýnir af sér aðra vanvirðandi háttsemi gagnvart barni skal sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum.

Hver sá sem hvetur barn til lögbrota, áfengis- eða fíkniefnaneyslu eða annarrar hegðunar sem stefnir heilsu barnsins og þroska eða lífi og heilsu annarra í alvarlega hættu skal sæta sektum eða fangelsi allt að fjórum árum.

Hver sem sýnir barni yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, særir það eða móðgar skal sæta sektum eðafangelsi allt að tveimur árum.“

Barnaverndaryfirvöldum hljóti að bera skylda til að kæra atvikið til lögreglu, en það hafi áður verið gert í málum barna kæranda, þ.e. þegar yngra barnið greindi frá rassskellingum föður sem einnig séu refsiverðar, en málið hafi verið fellt niður án frekari rannsóknar. Þegar um sé að ræða ofbeldi gagnvart barni, ætti lögreglurannsókn að hefjast án tafar og taka skýrslu af viðkomandi börnum í barnahúsi. Það hafi ekki verið gert og hafi aldrei verið gert í málum barnanna þrátt fyrir ótal tilkynningar um ofbeldi föður sem ættu að veita áreiðanlegar vísbendingar um ofbeldi, en í 2. mgr. 52. gr. sakamálalaga segir:

"Lögregla skal hvenær sem þess er þörf hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem henni hefur borist kæra eða ekki."

Það hljóti að vera ljóst að brotið hafi verið á réttindum barna kæranda til réttlátrar og eðlilegrar meðferðar í málum þeirra hjá barnaverndarþjónustu B, og að þau fái ekki notið þeirra réttinda, verndar og þjónustu sem þeim eiga að vera tryggð samkvæmt íslenskum lögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Með vísan til framangreinds sé niðurstaða barnaverndarþjónustu B kærð enda um efnislega ranga niðurstöðu að ræða og engin haldbær rök færð fyrir því að ekki þurfi að kanna málin betur eða veita stúlkunni áframhaldandi þjónustu frá barnavernd, s.s. greiðslur á sálfræðimeðferð. Þá hljóti að teljast afar sérstakt að málið teljist upplýst með því að leita til skólans til að kanna frásögn barnsins hjá sálfræðingi sem hún hafi sjálf sagt frá undir miklum trúnaði. Ljóst sé að börnum getur vegnað vel í skóla þrátt fyrir erfiðar aðstæður heima fyrir. Þá virðist málið áfram afgreitt sem ágreiningur foreldra í stað þess að horfa á að raunverulega hefur átt sér stað ítrekað ofbeldi föður gagnvart börnunum sem þau hafa bæði lýst, auk þess sem fjöldi tilkynninga frá ótal aðilum hafi borist til barnaverndarþjónustu B, án þess að þau fái viðunandi könnun. Enginn lagalegur rökstuðningur sé fyrir lokun málsins og af hverju þetta sé ekki kannað með viðunandi hætti.

Samkvæmt samtali við skóla stúlkunnar kom fram að þau hafi svarað fyrirspurn frá barnaverndarþjónustu B í byrjun apríl [2022]. Staðan í skólanum sé góð, einhver verkefni óunnin vegna fjarveru eða leyfis, félagslega góð staða, kurteis og ljúf, fer ekki mikið fyrir henni, 73% raunmæting sem sé frekar lág og að mætingin hafi verið að versna upp á síðkastið. Þá hafi komið fram á fundi þeirra með barnavernd að greinilegt væri að um aukin OCD einkenni hennar væri að ræða, og greinilegt væri að stúlkan væri að reyna að halda aftur af sér og staðan hennar því ekki góð undanfarið. Þrátt fyrir þetta hafi barnavernd ekki talið að þarna væru tengsl á milli atburðar þess sem átti sér stað í febrúar og versnunar hjá stúlkunni í mætingu og einkennum OCD.

Það skal tekið fram að kærandi hafi einnig kvartað til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, vegna meðferðar á málum barna minna hjá barnaverndarþjónustu B sem hafa staðið opin frá árinu 2018 og í ljósi þess að barnaverndarþjónusta B hefur, að mati kæranda, ekki orðið við þeim tilmælum sem komu fram í niðurstöðu Barnaverndarstofu. Kærandi hafi áður kvartað til Barnaverndarstofu og kom niðurstaða þeirra í desember 2021.

Í athugasemdum kæranda, dags. 28. júní 2023, við greinargerð barnaverndarþjónustu B komi fram að kærandi telji að greinargerðin undirstriki það illkynja viðhorf sem hún og börn hennar hafi mætt hjá barnaverndinni og kerfinu öllu sem þolendur ofbeldis. Litið hafi verið á málið sem ágreining vegna forsjár en ekki það sem það sé í raun, þ.e. ofbeldi og vanrækslu gagnvart börnunum. Ofbeldi sé ekki ágreiningur. Málið varð ekki að forsjármáli fyrr en barnsfaðir kæranda hafnaði heilbrigðisþjónustu fyrir eldra barnið og hélt yngra barninu frá henni og eldra barninu í marga mánuði. Barnavernd hafi ekki stigið inn í málið og því hafi kærandi verið tilneydd til að höfða forsjármál.

Kærandi kveðst leggja sig fram um að vernda börn sín gegn ofbeldi og vanrækslu sem sé ekki ágreiningur, heldur lagaleg skylda hennar líkt og það sé lagaleg skylda barnaverndar að vernda börn gegn ofbeldi og vanrækslu. Það að faðir neiti heilbrigðisaðstoð og sé þannig ósammála henni og sérfræðingum sem töldu heilbrigðisaðstoð nauðsynlega fyrir barnið, virðist vera talinn ágreiningur. Eldra barnið hafi neitað að fara til föður vegna ógnandi hegðunar hans og ótta gagnvart honum og ráðlagði sálfræðingur á vegum barnaverndar, Y,  að barnið ætti ekki að vera þvingað þangað. Það hafi samt sem áður verið stimplað sem ágreiningur um umgengni og hefndi faðir sín með því að flytja í annan landsfjórðung án þess að tilkynna henni um það og haldið þannig drengnum frá kæranda, án nokkurrar gildra ástæðna.

Það sé áberandi og átakanlegt hvernig kerfin bendi á hvort annað, þ.e. dómar í málinu byggja að stórum hluta til á niðurstöðum barnaverndar sem könnuðu ekki ofbeldið með fullnægjandi hætti, sbr. niðurstöðu Barnaverndarstofu, og komast þannig að þeirri niðurstöðu að ekkert ofbeldi hafi verið sannað í málinu. Nú bendir barnaverndin á dómana til að rökstyðja að ekkert ofbeldi hafi átt sér stað, svo þetta sé komið í heilan hring. Ljóst sé að mati kæranda að tilkynningar hafa ekki verið kannaðar með fullnægjandi hætti í málum barnanna af hálfu barnaverndar, hvorki fyrr né síðar þegar enn séu að berast tilkynningar.

Þau hafi verið þung skrefin að stíga út úr þeim ofbeldisaðstæðum sem þau hafi búið við sumarið 2017 og útheimtu lögregluaðgerð vegna líflátshótana frá barnsföður kæranda. En ofbeldið hætti ekki þá. Velferðarsamfélagið með kerfið sem hafi átt að grípa hana og börnin og vernda þau hafi brugðist á öllum stigum. Þegar að faðir hafði komið í veg fyrir nauðsynlega heilbrigðisþjónustu fyrir eldra barnið með ógnandi hegðun sinni og hótunum til fagaðila og numið yngra barnið á brott og haldið því í öðrum landsfjórðungi í marga mánuði, án nokkurs sambands við kæranda og eldra systkin, hafi kærandi verið ég tilneydd til að fara af stað í forsjármál. Kærandi hafi þurft að berjast fyrir því eins og ljón að börnin fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, en bæði börnin þarfnast lyfja og eftirlits lækna og annarra sérfræðinga. Baráttuna hafi kærandi ekki aðeins háð við föður barnanna, heldur einnig er að því virðist í óþökk barnaverndaryfirvalda og dómstóla. Eftir að kærandi fékk fulla forsjá dóttur sinnar hafi hún loksins getað leitað nauðsynlegrar heilbrigðisaðstoðar fyrir hana sem hún hafi ekki getað áður en hún höfðaði málið þar sem faðir hafnaði og barnavernd steig ekki inn í málið. Komið hafi í ljós að veikindi hennar séu mjög alvarleg og hamlandi í öllum daglegum athöfnum og nú nýlega hafi BUGL gefið út endanlega greiningu á vanda hennar þar sem hún er greind með einhverfurófsröskun (Aspergerheilkenni), áráttu- og þráhyggjuröskun, aðlögunarraskanir, áfallastreituröskun og aðrar kvíðaraskanir. Hún þarfnist þungrar lyfjameðferðar, eftirlits og meðferðar lækna og sérfræðinga á BUGL. Kærandi hafi byrjað árið 2018 að reyna að fá aðstoð og benda á vanda hennar en barnaverndarkerfið hafi með öllu brugðist og staðið með föður gegn því að barnið fengi heilbrigðisaðstoð. Nú hafi komið að kærandi hafði rétt fyrir sér og sýnir að hún var tilneydd til að höfða forsjármálið.

Íslenskum barnaverndaryfirvöldum ber skylda til samkvæmt lögum að vernda börn gegn hverskyns ofbeldi. Hefðu hlutaðeigandi stjórnvöld veitt þá vernd sem þeim bar að veita og siðferðileg skylda til að gera, þá hefði málið ekki þurft að fara fyrir dómstóla sem forsjármál. Barnaverndarstofa hafði gert formlegar og alvarlegar athugasemdir um að lögum og reglum hafi einfaldlega ekki verið fylgt við meðferð mála barnanna hjá barnavernd. Ekki hafi verið kannaður allur sá fjöldi ábendinga sem barst frá löggæsluaðilum, skólum, heilbrigðisstarfsmönnum og frásagnir barnanna um andlegt og líkamlegt ofbeldi hans í garð þeirra og móður þeirra, sem þó gáfu rökstuddan grun um að ofbeldi hefði átt sér stað. Neitun hans ein dugði til. Barnavernd ályktaði síðan út frá því að hafa ekki kannað ofbeldið, að ekkert ofbeldi hefði átt sér stað. Frásagnir barnanna um ofbeldi, t.d. rassskellingar föður á yngra barninu, sem séu refsiverðar samkvæmt íslenskum lögum, hafi aldrei verið rannsakað með fullnægjandi hætti. Það ofbeldi sem tilkynnt hafi verið um nýlega, rétt áður en málunum hafi verið lokað, sé einnig refsivert samkvæmt íslenskum lögum.

Þrátt fyrir athugasemdir Barnaverndarstofu dæmdu dómstólar í samræmi við niðurstöðu barnaverndar um að ekkert ofbeldi hefði átt sér stað af hans hálfu og hunsuðu þannig alvarlegar athugasemdir um að ofbeldið hefði ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti. Bæði dómstólar og barnavernd hafa talið að þetta eigi ekki við rök að styðjast, og vísa hvort á annað. Með öðrum orðum virðast þau úrskurða að kærandi og börnin séum að ljúga til um þetta. Í dómsal hafi kærandi verið skömmuð fyrir að kalla sig þolanda heimilisofbeldis. Ofbeldið fékk endanlega titilinn „ágreiningur“ fyrir dómi og dómari skipti forsjá systkinanna upp á milli foreldranna. Dómara bar samkvæmt barnalögum að taka tillit til þess við ákvörðun varðandi forsjá og umgengni hvort hætta sé á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið fyrir eða verði fyrir ofbeldi. Kærandi hafi leitað allrar þeirrar aðstoðar sem ég átti kost á frá fagaðilum, dvalið í H, leitað til I, leitað læknisaðstoðar, farið í áfallameðferð, verið greind með áfallastreituröskun, margoft þurft að kalla til lögreglu vegna áreitis og innbrots og fleira. Enginn af þeim aðilum sem hafa veitt kæranda aðstoð hafi efast um að hún hafi orðið fyrir alvarlegu ofbeldi. Eldra barnið, sem áður hafði verið dæmt í umgengni undir eftirliti í tvær klukkustundir á mánuði, hafi verið dæmt til að fara í umgengni aðra hvora helgi til föður. Ótti hennar hafi sannarlega verið staðfestur af fagaðilum, en dómari ákvað að þetta væri ekki rétt, hún væri í raun ekki hrædd við föður þó að hún segði það og þó að læknar væru búnir að greina hana með áfallastreituröskun og djúpstæðan kvíðavanda. Samkvæmt fagaðilum og skriflegu áliti frá óháðum sálfræðingi á vegum barnaverndar, þótti óráðlegt að þvinga barnið í umgengni til hans, ótti barnsins var metinn trúverðugur og átti sér réttlætanlegar ástæður sem raktar voru til föður. Að minnsta kosti þrír fagaðilar sem reyndu að hjálpa börnunum höfðu sjálfir orðið fyrir hótunum og/eða ógnandi hegðun föður. Samt ályktar dómari að barnið beri ekki ótta til föður síns og sakar móður um tálmun á umgengni. Yngra barnið hafi verið dæmt alfarið í forsjá hans, kærandi hafi því misst forsjá yngra barnsins og systkinin hafa verið aðskilin. Barn sem greint hefur frá ofbeldi foreldris hefur verið dæmt í forsjá þess og náin systkini séu nú alin upp á sitthvoru heimilinu. Sú staðreynd að faðirinn hafði numið barnið á brott og haldið frá kæranda í marga mánuði hafi verið afsökuð með því að dómari teldi það einungis jafngilt því að móðir hefði takmarkað umgengni eldra barnsins við föður, þó það væri í samræmi við fyrri úrskurð og ráðleggingar fagaðila á vegum barnaverndar, Í. Dómstóllinn afsakaði þannig skeytingarlausa hegðun föður gagnvart börnunum með því að gera verndandi hegðun og löghlýðni móður tortryggilega.

Í nýlegri opinberri skýrslu, frá nefnd Evrópuráðsins um ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (GREVIO),1[1] um stöðu málaflokksins hér á landi, hafi verið lýst þungum áhyggjum af meðferð sýslumanna, dómstóla og barnaverndaryfirvalda á málum þolenda heimilis- og kynferðisofbeldis, þegar kemur að ákvörðun um umgengni, lögheimili og/eða forsjá barna eftir skilnað eða sambúðarslit foreldra. Áhyggjurnar sneru að því að ekki sé nægilega mikið gert af hálfu íslenskra stjórnvalda til að gæta að öryggi kvenna og barna í málavinnslunni. Nefndin gagnrýndi meðal annars harðlega, í þessu samhengi, notkun hugmynda sem skortir vísindalegt réttmæti; að málin séu afgreidd þannig hjá barnaverndaryfirvöldum, dómstólum og sýslumanni að ofbeldi hafi ekki átt sér stað, þegar ofbeldi fær næga stoð í gögnum, að enginn ótti sé til staðar hjá barni sem það tjáir og að móðir innræti barni að hafna umgengni við föður. Mál kæranda og barnanna sé skólabókardæmi um hvernig íslenska kerfið bregst með alvarlegum hætti.

Þolendur séu ævinlega hvattir af stjórnvöldum til að „segja frá“ en það séu sömu stjórnvöld sem munu síðan nota það gegn þeim að hafa gert það. Þau skilaboð sem við höfum mætt frá íslenska kerfinu séu að segja alls ekki frá – því þeim sé ekki trúað og þeim sé refsað. Íslenska kerfinu, barnavernd og dómstólum, sé ekki treystandi til að veita þeim vernd.

Það sé því einfaldlega rangt þegar barnavernd segi að ofbeldi föður í garð barnanna sé fullrannsakað. Þau hafi öll þrjú sagt frá ofbeldi hans, kærandi og börnin bæði, en hann einn neitar og það virðist duga þrátt fyrir ótal tilkynningar og vísbendingar um ofbeldi í málinu. Þau hafi þurft að lifa við það frá árinu 2017 þegar barnaverndarmál hafi fyrst verið opnað að ekki sé hlustað á þau, og þannig gefin þau skilaboð að þegja og lifa við þetta. Þau séu orðin samdauna þessum gaslýsandi samskiptum af hans hálfu og af hálfu yfirvalda og séu öll með einkenni áfallastreitu. Það geti heldur ekki talist rétt af hálfu barnaverndar að vísa til þessara endurteknu viðhorfa sinna til áframhaldandi rökstuðnings um að ekkert ofbeldi hafi átt sér stað þegar rannsakaðar séu nýjar tilkynningar í málinu, sbr. það sem borist hefur frá sálfræðingi stúlkunnar nýlega. Það hljóti að verða að rannsaka þær sjálfstætt og með fullnægjandi hætti líkt og Barnaverndarstofa benti á í greinargerð sinni. Í þeim tilvikum sem komið hafa fram vísbendingar í málinu hafi þeim gögnum verið sópað undir teppi og þau einfaldlega gufað upp í meðferð barnaverndar. Gott dæmi um það sé skýrsla Í sálfræðings, sem fylgir kærunni, sem fenginn hafi verið að málinu af hálfu barnaverndar til að meta stöðu stúlkunnar. Engin viðbrögð hafi verið í kjölfar skýrslunnar hjá barnavernd, t.d. að setja inn í meðferðaráætlun að vinna með þann vanda sem þar kom fram, s.s. um ótta barnsins til föður og að hún ætti ekki að vera þvinguð til hans. Kærandi hafi engin svör fengið við fyrirspurnum hennar til barnaverndar og skýrslan einfaldlega gufaði þar upp og löngu síðar hafi verið gefnar þær skýringar að faðir hefði verið ósáttur við skýrsluna og því gæti Í ekki unnið meira að málinu. Engin frekari vinna hafi farið af stað.

Það hafi verið margbrotið á mannréttindum barna kæranda um rétt til lífs án ofbeldis, og rétt til heilbrigðisþjónustu. Nú eigi enn einu sinni að horfa framhjá augljósum vísbendingum um ofbeldi með því að loka málum þeirra án frekari rannsóknar líkt og áður og vísa í fyrri niðurstöður barnaverndar sem augljóslega hafi verið haldið mörgum ágöllum líkt og Barnaverndarstofa benti á.

Þá hljóti að teljast sterkari gögn frá sálfræðingi sem hafi verið að hitta barnið í nokkurn tíma og mynda við það trúnaðarsamband, heldur en afstaða fulltrúa barnaverndar, sem hafi eingöngu hitt börnin í örfá skipti og sem virðist þó telja að umgengni stúlkunnar við föður gangi bara vel.

Þá sé mikilvægt að benda á að alþjóðasamfélagið sé loksins að vakna varðandi alvarleika þeirra mannréttindabrota sem eiga sér stað í forsjármálum þar sem ofbeldi komi við sögu. Mannréttindaráð Sameinuðu Þjóðanna gaf út skýrslu þann 23. júní 2023 sem fjalli um tengsl forsjármála og ofbeldis gegn konum og börnum, með sérstaka áherslu á misnotkun hugtaksins „Foreldra-firring“ og svipuð gervihugtök.[2] Skýrslan sé afar mikilvæg í baráttu fyrir rétti þolenda ofbeldis og er þar lýst yfir neyðarástandi vegna alvarlegra mannréttindabrota í forsjármálum þar sem ofbeldi kemur við sögu. Staðan sé hreinlega það slæm að verið sé að brjóta á mannréttindum þolenda ofbeldis, bæði af hálfu gerenda og yfirvalda, í þeim málum sem enda fyrir dómstólum.[3] Hér sé einnig verið að tala um Ísland, og öllum aðildarríkjum SÞ bent á þau mannréttindabrot sem framin séu af dóms- og ríkisvaldinu, um heim allan, oftast gegn konum og börnum, í ákvörðun um forsjá og umgengni þar sem þolendur kynbundins ofbeldis eiga í hlut. Reem Alsalem ávarpaði Mannréttindaráð SÞ við útgáfu skýrslunnar og sagði:

"Within the context of child custody cases, there exists multi-layered violence that has yet to enter the collective conscience of the international community as a human rights issue"

Skýrslan bendi m.a. á að yfirvöld horfi framhjá sögu um heimilisofbeldi og að slíkt ofbeldi sé hunsað, sem leiði til mannréttindabrota gagnvart þolendum ofbeldis. Í þeim málum þar sem ásakanir um heimilisofbeldi hefur komið fram hafi þolendum verið refsað fyrir að segja frá, af löggæslu og/eða dómsvaldi sem beri ábyrgð á ákvörðunum um forsjá. Tilhneigingin sé sú að hlusta ekki á fyrri sögu um heimilisofbeldis og vanrækslu þrátt fyrir að mæður og/eða börnin hafi sjálf borið fyrir sig trúverðugar ásakanir um líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi. Þá hafi dómstólar í mörgum löndum tilhneigingu til að dæma slíkar ásakanir sem vísvitandi tilraunir mæðra til að hagræða börnum sínum og aðskilja þá frá feðrum sínum. Þetta sé það sem kallað hafi verið „foreldrafirring“.[4] Foreldri sem er að vernda barnið sitt frá ofbeldi, og barninu sjálfu, er ekki trúað og áherslan fer á það hversu „firrt“ það foreldri sé í stað þess að horfa á alla ofbeldissöguna sem hafi átt sér stað. Leiðir þetta til þess að ekki sé hlustað á ofbeldi sem átt hafi sér stað og mæðrum og börnum refsað með því að börn séu tekin af mæðrum sínum og færð til þess sem beitt hefur þau ofbeldi.

Í skýrslunni sé m.a. þeim tilmælum beint til aðildarríkja að mikilvægt sé að ríki hafi í heiðri Istanbúlsamninginn, sérstaklega 31. gr. þar sem fram kemur að yfirvöld skuli taka tillit til ofbeldis þegar teknar séu ákvarðanir um forsjá barna og umgengni. Þá komi fram að ofbeldi gagnvart öðrum á heimilinu eigi einnig að telja til við mat á því hvort barn sé öruggt á heimilinu. Þessi samningur hafi verið samþykktur af íslenskum yfirvöldum.

Mál kæranda og barna hennar sé skólabókardæmi um svokallaða foreldrafirringu – fyrst hjá barnavernd og svo fyrir dómstólum, þar sem frásagnir þeirra af ofbeldi af hálfu föður barnanna, auk ótal annarra tilkynninga sem þangað hafa borist, hafi verið hunsað og notað gegn þeim – talið ósannað án frekari könnunar. Eldra barnið hafi hefur borið fyrir sig ótta gagnvart föður vegna hegðunar hans í hennar garð, þetta hafi hún sagt barnavernd og dómstólum, en fær enga hlustun þrátt fyrir ótal vísbendingar um að það sé rétt hjá henni og staðfestingar um trúverðugleika hennar. Það sé einfaldlega lagt til grundvallar að hún sé ekki að segja satt og búa þetta til. Aftur og aftur sé ekki hlustað, og nú einu sinni enn sem varð tilefni kæru þessarar.


 

Kærandi vilji að lokum minna á að:

barnalög og alþjóðasamningar kveða á um skyldur forsjárforeldra til að vernda börn sín frá hvers kyns ofbeldi en jafnframt skyldu stjórnvalda til að tryggja að svo megi verða. 19. gr. Barnasáttmálans kveður á um skyldu stjórnvalda að virða rétt barna til verndar gegn ofbeldi í allri ákvarðanatöku sem varðar þau. Þá kveður 31. gr. Istanbúl samningsins á um að stjórnvöldum beri að taka tillit til ofbeldisbrota við ákvarðanir um forsjár og umgengni barna, en jafnframt segir þar að stjórnvöld skuli tryggja að forsjár- eða umgengnisréttur stefni ekki réttindum og öryggi barna í hættu.“

III.  Sjónarmið barnaverndarþjónustu B

Í greinargerð barnaverndarþjónustu B kemur fram að kærð sé ákvörðun barnaverndarþjónustu B að loka máli C.

Hvað varðar málefni D sé það mat barnaverndarþjónustu B að kæranda skorti lagaheimild til að skjóta ákvörðun um lokun máls til úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem kærandi fari ekki með forsjá drengsins, sbr. 23. gr. barnaverndarlaga.

Málavinnsla barnaverndarþjónustu B í málum barna kæranda, Cog bróður hennar, hafi m.a. snúið að ófullnægjandi aðstæðum barnanna sem sköpuðust vegna forsjár- og umgengnisdeilu milli foreldra sem staðið hafa í mörg ár. Forsjárdeila foreldra hafi farið fyrir dómstóla, við meðferð málsins fyrir dómi fór fram umfangsmikil öflun upplýsinga og gagna varðandi líðan barnanna í umsjá foreldra. Niðurstaða Héraðsdóms J  lá fyrir 30. desember 2021 og var á þá leið að faðir hefði forsjá drengsins og kærandi færi með forsjá C. Samkvæmt fyrrgreindum dómi héraðsdóms skyldi drengurinn njóta umgengni við kæranda aðra hvora helgi og stúlkan skyldi njóta umgengni við föður sinn aðra hvora helgi, með aðlögunartímabili. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til Landsréttar sem staðfesti ákvörðun Héraðsdóms J þann 3. júní 2022.

Í dómi héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, og staðfestur var af Landsrétti, kom m.a. fram að mikilvægt væri að unnið yrði að aukinni umgengni stúlkunnar við föður. Þá taldi dómurinn engin efni til að umgengnin yrði undir eftirliti og vísaði þar til hve vel hún hefði gengið fram að því. Dómurinn tók fram að samband feðginanna bæri samkvæmt áhorfskönnun og vitnisburði sérfræðinga með sér að vera raunverulega ástríkt, þrátt fyrir að stúlkan tjáði sig um að vilja ekki dvelja hjá föður. Þá lægi fyrir að stúlkan hefði laumast til föður síns þrátt fyrir tjáða andstöðu við umgengni. Ljóst væri að mikil vinna væri framundan við að endurheimta og styrkja eðlileg tengsl stúlkunnar við föður sinn.

Þá hafi það einnig verið niðurstaða dómsins að endurteknar ásakanir kæranda um ofbeldi af hálfu föður, m.a. í garð stúlkunnar, hafi sætt ítarlegri rannsókn fagaðila, þ. á m. barnaverndar, en engin merki hafi fundist um að þær væru á rökum reistar. Dómurinn taldi athugun leiða í ljós að ótti stúlkunnar við föður sinn styddist ekki við nein gögn eða lýsingar á því að nokkuð áþreifanlegt byggi þar að baki. Að öllu virtu taldi dómurinn að stúlkunni stæði ekki ógn af föður sínum.

Í kjölfar niðurstöðu dómstóla hafi aðkoma barnaverndarþjónustu B í máli stúlkunnar falist í því að styðja hana við að hefja umgengni við föður án eftirlits samkvæmt úrskurði dómstóla; að vinna að því að bæta samskipti foreldra, að styðja við ástundun stúlkunnar í skóla, líðan hennar og félagsleg tengsl og að aðstoða foreldra við að afla nauðsynlegra skjala frá hvort öðru til að fara með börnin til útlanda í leyfum.

Auk þess hafi C fengið samfelldan stuðning á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 frá því áður en niðurstaða dómstóla lá fyrir, eða frá júlí 2021. Þjónustan hafi bæði verið í formi einstaklingsstuðnings og dvöl í K, tvo sólarhringa í mánuði. Stuðningurinn hafi verið veittur með vísan til 26. gr. tilvitnaðra laga og reglna B um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra. Stuðningurinn hafi í upphafi verið veittur í samræmi við áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga. Stúlkan hafi áfram notið þess stuðnings eftir að áætlun rann út í janúar 2022 og nýtur enn.

Málstjórn barnaverndar hafi verið í höndum verktaka frá lokum árs 2021 í kjölfar þess að kærandi hafði lýst yfir vanhæfni fyrrum málstjóra málsins. Í samskiptum barnaverndarþjónustunnar við málstjóra (verktaka) í september 2022 kom fram að málstjóri taldi ekki forsendur fyrir frekari aðkomu barnaverndar að málinu. Til stóð að loka máli stúlkunnar í september 2022 en þá hafði ekki verið gild meðferðaráætlun í málinu frá því að fyrri áætlun rann út í janúar sama ár. Beðið hafi verið greinargerðar málstjóra. Áður en hún barst bárust hins vegar upplýsingar frá sálfræðingi stúlkunnar í október og nóvember 2022. Í ljósi þeirra upplýsinga hafi verið ákveðið að loka ekki málinu að svo stöddu.

Í skýrslu sálfræðings dags. 25. október 2022 hafi komið fram það mat að forsendur fyrir áfallameðferð stúlkunnar væru ekki fyrir hendi þar sem stúlkan væri í umgengni við föður sinn sem væri rót þeirrar áfallastreitu sem stúlkan glímdi við. Eins kom fram að stúlkan virtist vera í ójafnvægi eftir dvöl hjá föður og að kærandi og stúlkan greindu frá versnun á þráhyggju- og árátturöskunareinkennum í kjölfar þess. Kom fram að forsendur fyrir áfallameðferð myndu ekki skapast nema stúlkan kæmist í skjól frá því sem hún teldi vera ógn.

Í viðbótarsamantekt sálfræðingsins dags. 15. nóvember 2022, komu fram frekari útlistanir á því sem stúlkan hafði lýst í viðtölum hjá sálfræðingi. Þar kom meðal annars fram að sálfræðingur teldi lýsingar stúlkunnar á samskiptum hennar við föður tegund af alvarlegu andlegu ofbeldi (gaslýsingu), hann kæmi inn hjá henni samviskubiti og stúlkan fengi oftast OCD-kast eftir að hafa verið í umgengni hjá föður, sem trufli m.a. skólagöngu hennar. Taldi sálfræðingur þessar aðstæður hjá föður óásættanlegar og þess eðlis að ekki væri hægt að veita stúlkunni þá meðferð sem hún þyrfti á að halda, nema að umgengni færi að minnsta kosti fram undir eftirliti.

Tilkynningin sem kærandi vísar til í kæru sinni til úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. [16]. mars 2023, varðar það að stúlkan hafi orðið vitni að harðræði föður í garð bróður síns. Umrædd tilkynning barst, líkt og framangreindar upplýsingar, frá sálfræðingi stúlkunnar.

Að mati barnaverndarþjónustu B voru upplýsingar frá sálfræðingi sambærilegar þeim upplýsingum sem áður höfðu komið fram og fjallað var um við rekstur málsins fyrir dómi. Fyrir dómi hafi verið aflað tveggja matsgerða. Í yfirmatsgerð kemur m.a. fram að varða þyrfti veginn að aukinni umgengni stúlkunnar við föður og föðurfjölskyldu í samvinnu við meðferðaraðila. Frumforsenda væri að draga úr spennu á milli foreldranna. Yfirmatsmaður hafi verið sammála því mati L að ekkert meðferðarúrræði myndi bera raunverulegan árangur fyrr en samstaða næðist á milli foreldranna um samstarf. Öll fjölskyldan þyrfti aðstoð fjölskylduráðgjafa og að fyrr myndi börnunum ekki líða betur.

Líkt og fram hafi komið fékk stúlkan ýmsa aðstoð og stuðning á þessum tíma á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og vandi sá sem lýst var í upplýsingum frá sálfræðingi virtist varða það að stúlkan þyrfti skjól frá umgengni við föður sinn. Engar tilkynningar hafa borist frá skóla, K eða liðveitendum stúlkunnar þrátt fyrir ríka tilkynningarskyldu þeirra sem starfa með börnum, sbr. 17. gr. barnaverndarlaga. Forsjárdeila foreldra hafi farið fyrir dómstóla á grundvelli barnalaga nr. 76/2003 en ekki fyrir tilstuðlan barnaverndarþjónustunnar né á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002. Barnaverndarþjónustan hafi af þessum sökum ekki heimildir til að hlutast til um umgengni þegar mál séu vaxin með þeim hætti sem hér um ræðir.

Við yfirferð málsins hafi það verið mat starfsmanna að betur hefði farið á ef bókað hefði verið um lokun málsins þegar meðferðaráætlun rann út þann 31. janúar 2022. Þá hafði stúlkunni verið tryggður stuðningur á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og engar tilkynningar höfðu borist í máli stúlkunnar sem gáfu tilefni til áhyggna af aðstæðum hennar. Þá höfðu dómstólar einnig komist að niðurstöðu í málinu varðandi forsjá og umgengni stúlkunnar og bróður hennar. Þá eiga mál ekki að vera unnin á grundvelli barnaverndarlaga nema tilefni sé til, enda geti málavinnsla verið íþyngjandi fyrir barn og fjölskyldu.

Að mati barnaverndarþjónustu B hafa upplýsingar sem bárust frá sálfræðingi stúlkunnar verið nægilega kannaðar með hliðsjón af því sem áður hefur komið fram við vinnslu málsins hjá barnavernd, dómstólum og lögreglu. Áður en barnaverndarafskiptum hafi verið hætt var tryggt að stúlkan fengi fullnægjandi stuðning hjá skóla og stuðningsþjónustu sveitarfélagsins. Stúlkan hefur málstjóra í stuðnings- og stoðþjónustu ásamt því að í skólanum er starfandi teymi þar sem sitja móðir, umsjónarkennari, deildarstjóri, námsráðgjafi og þroskaþjálfi og fundar eftir þörfum hverju sinni.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan, C, er X ára gömul dóttir kæranda. Drengurinn D, er X ára gamall sonur kæranda. Mál barnanna hefur verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum frá árinu 2017. Í máli þessu er til úrlaunsnar sú ákvörðun barnaverndarþjónustu B að loka stúlkunnar í kjölfar könnunar máls, dags. 27. apríl 2023. Einnig er kærð ákvörðun barnaverndarþjónustu B, dags. 28. mars 2023 um að hefja ekki könnun máls vegna tilkynningar sem barst 16. mars 2023 vegna sonar kæranda, D.

Í 4. mgr. 21. gr. bvl. kemur fram að ákvörðun barnaverndarþjónustu um að hefja könnun máls eða að hefja ekki könnun sé hvorki kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála né annars stjórnvalds. Barnaverndarþjónusta skal tilkynna foreldrum um að tilkynning hafi borist og um ákvörðun sína í tilefni af henni innan viku frá því að ákvörðunin var tekin. Heimilt sé að fresta tilkynningu til foreldra vegna ríkra rannsóknarhagsmuna. Barnaverndarþjónustu ber einnig að staðfesta við tilkynnanda að tilkynning hafi borist og gefa almennar upplýsingar um málsmeðferð vegna tilkynningar. Í greinargerð barnaverndarþjónustu B kemur fram að kærandi teljist ekki vera aðili þess máls þar sem hún fari ekki með forsjá drengsins. Úrskurðarnefndin telur rétt að benda á að í 3. mgr. 3. gr. bvl. kemur fram að með foreldrum sé átt við foreldra skv. I. kafla barnalaga. Samkvæmt orðanna hljóðan í framangreindu ákvæði verður ráðið að foreldri barns, líkt og þeir eru skilgreindir í barnalögum, sé aðili máls þrátt fyrir að forsjá barnsins sé ekki í þeirra höndum. Þar sem ekki er til staðar kæruheimild vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli 21. gr. bvl. er þeim hluta kærunnar vísað frá úrskurðarnefndinni

Í 1. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarþjónusta skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu er reynt að tryggja að ákvarðanir nefndarinnar séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Ekki verða settar fram nákvæmar reglur um það hvernig staðið skuli að könnun máls og hverra gagna skuli aflað, enda er það matsatriði og breytilegt eftir eðli máls hverju sinni. Í því sambandi ber þó að gæta að 2. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og skuli henni hraðað svo sem kostur er. Í þessu felst meðal annars að barnaverndarþjónusta skuli ekki ganga lengra í gagnaöflun og könnun máls hverju sinni en nauðsynlegt er. Í þessu felst einnig að ekki séu notaðar harkalegri aðferðir við könnun máls og öflun gagna en efni standa til.

Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal þjónustan kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarþjónustu, skyldu til að láta barnaverndarþjónustu í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarþjónustu almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.

Í 1. mgr. 23. gr. bvl. kemur fram að þegar mál hefur verið kannað skal þjónusta taka saman greinargerð þar sem lýst er niðurstöðum könnunar, tiltekið er hverra úrbóta sé þörf og settar eru fram tillögur að heppilegum úrræðum ef því er að skipta. Í greinargerð skal sérstaklega tiltaka hvernig barni var gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hvernig tillit var tekið til skoðana barnsins, eftir því sem við á.

Þá kemur fram í 21. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd að könnun barnaverndarmáls skal fara fram áður en beitt er úrræðum á grundvelli ákvæða barnaverndarlaga og henni skal hraðað svo sem kostur er. Könnun skal ekki vera umfangsmeiri en þörf krefur hverju sinni og ekki skal aflað annarra persónuupplýsinga en þeirra sem nauðsynlegar eru til að geta fjallað um mál barns. Þegar mál hefur verið nægilega kannað að mati barnaverndarnefndar skal nefndin taka saman skriflega greinargerð sem kynnt skal fyrir forsjáraðilum og barni eftir því sem við á. Í greinargerð skal geta um:

a. tilkynningar og efni þeirra eða annað tilefni könnunar þegar það á við,

b. ákvörðun um að hefja könnun og tilkynningu til forsjáraðila,

c. með hvaða hætti mál var kannað,

d. niðurstöður könnunar, og

e. tillögum að heppilegum úrræðum ef talin er þörf á úrbótum.

Líkt og fram hefur komið var máli stúlkunnar lokað með ákvörðun þann 27. apríl 2023 með vísan til þess að aðstæður stúlkunnar teldust viðunnandi, meðferðaráætlun hafi ekki verið í gildi í meira en ár og að stúlkunni hafi verið tryggður stuðningur í skóla. Samkvæmt gögnum málsins var ekki tekin saman greinargerð um niðurstöðu könnunar málsins líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 23. gr. bvl. og 21. gr. reglugerðar nr. 56/2004. Að því leyti hefur málsmeðferðarreglum bvl. ekki verið fylgt við meðferð málsins. Því liggja því ekki fullnægjandi gögn fyrir hinni kærðu ákvörðun sem nefndin getur endurskoðað og lagt mat á hvort rétt hafi verið að loka málinu. Þegar af þeirri ástæðu verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur úrskurðarnefndin að könnun málsins hafi ekki verið í samræmi við málsmeðferðarreglur barnaverndarlaga og því er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til barnaverndarþjónustu B til meðferðar að nýju.

 

 

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Vísað er frá úrskurðarnefnd velferðarmála kæru er varðar ákvörðun barnaverndarþjónustu B frá 28. mars 2023 um að hefja ekki könnun máls vegna drengsins D.

Ákvörðun barnaverndarþjónustu B, dags. 27. apríl 2023, um að loka máli vegna stúlkunnar C, er felld úr gildi og er lagt fyrir barnaverndarþjónustu B að taka málið til meðferðar að nýju.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 



[2] Skýrslu Sameinuðu Þjóðanna dags. 13. apríl 2023, Custody, violence against women and violence against children má finna hér: https://www.ohchr.org/en/documents/thematic-reports/ahrc5336-custody-violence-against-women-and-violence-against-children

[3] Sjá öll skjöl af umræddum fundi Sameinuðu Þjóðanna, 53rd session of the Human Rights Council (19 June to 14 July 2023) hér: https://www.ohchr.org/en/hr-bodies/hrc/regular-sessions/session53/regular-session Einnig sé hægt að horfa á upptöku af blaðamannafundi í tengslum við skýrsluna hér: https://media.un.org/en/asset/k1c/k1cyg656b0?fbclid=IwAR3KazDAQ-DimnalklZOIEd3SKAOEb139_-%20c3o6wHS2o6N6v-iDMjlTLqks

[4] Hér megi sjá grein þar sem hugtakið sé útskýrt nánar Falskenningin um foreldrafirringu: https://heimildin.is/grein/10426/


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum